Í ljósi þess að í dag fer fram opinber umræða um ársreikning fyrirtækisins, sem hluta samstæðu Reykjavíkurborgar, tekur Ljósleiðarinn ehf. þetta fram:
Það endurmat fjárfestingarþarfar Ljósleiðarans, sem sagt var frá í tilkynningu þann 28. febrúar sl. í tilefni samþykktar ársreiknings Ljósleiðarans, hefur staðfest að félagið býr yfir nægjanlegu handbæru fé til rekstrar á árinu 2024. Því mun að óbreyttu ekki koma til þess að Orkuveitan leggi Ljósleiðaranum til aukið hlutafé. Opnað var á þann möguleika við afgreiðslu ársreiknings Orkuveitu Reykjavíkur, sem samþykktur var og birtur 7. mars sl.
Aðstæður á fjármagnsmarkaði til útgáfu og sölu nýs hlutafjár hafa ekki verið hagfelldar það sem af er árinu 2024, en áfram er unnið að undirbúningi hlutafjáraukningar í samvinnu við ráðgjafa Ljósleiðarans. Samhliða mun Ljósleiðarinn greina aðra kosti við fjármögnun félagsins til næstu ára.
