Á aðalfundi Símans hf. þann 9. mars 2023 voru samþykktar tvær tillögur stjórnar félagsins um að lækka hlutafé félagsins. Samanlagt lækkar hlutafé um kr. 1.625.000.000 að nafnverði og er hlutafé eftir breytinguna kr. 2.775.000.000.
Fyrri tillagan snýr að lækkun hlutafjár vegna eigin hluta. Lækkunin nemur kr. 185.000.000 að nafnverði og tekur til eigin hluta sem félagið hefur eignast með kaupum á eigin hlutum samkvæmt endurkaupaáætlunum. Beiðni hefur verið send á Nasdaq og mun lækkunin verða framkvæmd föstudaginn 17. mars 2023. Verður hlutaféð þá samtals kr. 4.215.000.000 eftir fyrri lækkunina.
Seinni tillagan snýr að lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa. Lækkunin nemur kr. 1.440.000.000 að nafnverði. Lækkunarfjárhæðin sem er umfram nafnverð, eða kr. 14.260.000.000 mun verða færð til lækkunar á óráðstöfuðu eigin fé. Samtals verða því kr. 15.700.000.000 greiddar til hluthafa hlutfallslega í samræmi við hlutafjáreign þeirra miðað við skráningu í hlutaskrá í lok dags fimmtudaginn 30. mars 2023. Síðasti viðskiptadagur með réttindum til útgreiðslu vegna lækkunar hlutafjár er því þriðjudagurinn 28. mars 2023. Verður hlutaféð þá samtals kr. 2.775.000.000 eftir seinni lækkunina. Lögboðnar forsendur fyrir útgreiðslunni hafa nú verið uppfylltar og verður framkvæmd hennar eftirfarandi:
- Ex-dagur -1: 28. mars 2023
- Réttindaleysisdagur (Ex-dagur): 29. mars 2023
- Viðmiðunardagur: 30. mars 2023
- Lækkunardagur/greiðsludagur: 31. mars 2023
Hér á eftir fara nánari upplýsingar varðandi dagsetningar sem tilgreindar eru í framkvæmd lækkunar hlutafjár.
Ex-dagur - 1* - Síðasti viðskiptadagur
- Síðasti viðskiptadagur með bréfin ef núverandi hluthafi hyggst selja fyrir framkvæmd lækkunar.
- Kaupandi bréfanna mun fá bréfin afhend fyrir framkvæmd lækkunar og fá greiddar krónur til samræmis við ákvörðun hluthafafundar.
Réttindaleysisdagur (Ex-dagur)*
- Bréf hluthafa sem selur bréf sín á þessum degi eða seinna munu lækka og fær hluthafi greiddar krónur til samræmis við ákvörðun hluthafafundar.
- Seljandi verður að hafa í huga þann möguleika að bréf sem hann selur verða lækkuð fyrir afhendingu bréfa sem getur orðið til þess að viðkomandi haldi ekki á þeim fjölda bréfa sem hann skuli afhenda.
- Bréf kaupanda sem kaupir bréf í Símanum á þessum degi eða seinna munu ekki lækka og þar af leiðandi fær kaupandi ekki greitt.
Viðmiðunardagur
- Hlutafjáreign þeirra hluthafa sem skráðir eru í hluthafaskrá félagsins í lok þessa dags mun lækka til samræmis við ákvörðun hluthafafundar.
Lækkunardagur/Greiðsludagur
- Útgefið nafnvirði hlutafjár í Símanum mun lækka um kr. 1.440.000.000 að nafnvirði að morgni lækkunardags.
- Þeir hluthafar sem eiga bréf í lok viðmiðunardags fá greiddar krónur til samræmis við áður útgefna tilkynningu um niðurstöður hluthafafundar.
*Hér er miðað við að viðskipti séu gerð upp m.v. T+2 regluna.
Nánari upplýsingar veitir Davíð Scheving fjárfestatengill Símans í netfangi fjarfestatengsl@siminn.is.
