Stjórn Reita fasteignafélags hf. hefur samþykkt ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2022.
Lykiltölur rekstrar | 2022 | 2021 |
Tekjur | 13.481 | 11.850 |
Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna | -3.590 | -3.418 |
Stjórnunarkostnaður | -729 | -688 |
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu | 9.162 | 7.744 |
Matsbreyting fjárfestingareigna | 1.807 | 8.743 |
Rekstrarhagnaður | 10.969 | 16.487 |
Hrein fjármagnsgjöld | -10.677 | -6.748 |
Heildarhagnaður | 675 | 7.609 |
Hagnaður á hlut | 0,9 kr | 9,8 kr. |
Lykiltölur efnahags | 31.12.2022 | 31.12.2021 |
Fjárfestingareignir | 172.270 | 168.147 |
Handbært og bundið fé | 871 | 1.008 |
Heildareignir | 174.880 | 171.124 |
Eigið fé | 56.104 | 58.719 |
Vaxtaberandi skuldir | 97.087 | 90.895 |
Eiginfjárhlutfall | 32,0% | 34,3% |
Skuldsetningarhlutfall | 58,3% | 55,9% |
Lykilhlutföll | 2023 | 2022 |
Nýtingarhlutfall (tekjuvegið) | 95,1% | 95,1% |
NOI hlutfall | 64,6% | 59,3% |
Rekstrarhagnaðarhlutfall | 25,3% | 26,2% |
Stjórnunarkostnaðarhlutfall | 5,1% | 5,3% |
Guðjón Auðunsson, forstjóri:
"Rekstur Reita á árinu 2022 gekk mjög vel og horfur fyrir árið 2023 eru góðar. Tekjuvöxtur milli ára var sá mesti sem félagið hefur séð í nokkurn tíma og rekstrarhagnaður jókst hratt og er sem hlutfall af heildartekjum kominn í grennd við 65%.
Nýting eigna hefur aukist jafnt og þétt síðustu misseri. Mikið er um gerð nýrra og endurnýjaðra leigusamninga við öfluga leigutaka, þá er mjög stór hluti óútleigðra rýma vegna eigna í þróunar- eða framkvæmdaferli. Umfangsmiklar framkvæmdir eru hafnar og í undirbúningi víða innan eignasafnsins á spennandi staðsetningum, s.s. í Ármúla 7-9, Holtagörðum og Laugavegi 176.
Rénun heimsfaraldursins hefur jákvæð áhrif í samanburði milli ára. Búið er að ganga frá öllum eftirhreytum þessa tímabils.
Verðbólga setur svip sinn á reikning félagsins og skýrir hún aukningu í fjármagnsgjöldum á árinu. Jákvæð matsbreyting mælist yfir árið en á fjórða ársfjórðungi var umtalsverð matslækkun vegna skarpt hækkandi raunvaxta.
Árs- og samfélagsskýrsla Reita fyrir árið 2022 er komin út á www.arsskyrsla2022.reitir.is. Í henni má finna ítarupplýsingar um leigutaka, fasteignir og leigusamninga félagsins ásamt upplýsingum um áherslur í sjálfbærnimálum á árinu.“
Horfur ársins
Stjórnendur Reita hafa metið rekstrarhorfur félagsins fyrir árið 2023 og eru væntingar um að rekstur á árinu verði góður, útleiga aukist milli ára og að vöxtur kostnaðar verði hóflegur.
Gert er ráð fyrir að tekjur ársins verði á bilinu 14.650 - 14.850 m.kr. og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði á bilinu 9.900 -10.100 m.kr.
Horfur um afkomu gera ráð fyrir óbreyttu eignasafni, um 6% meðalverðbólgu yfir árið 2023, að eignabreytingar ársins 2022 skili nettó aukningu tekna um 90 m.kr. og að útleigu- og framkvæmdaverkefni ársins fari að skila auknum tekjum á síðari hluta ársins.
Félagið áformar áframhaldandi fjárfestingar innan eignasafnsins sem og kaup nýrra tekjuberandi eigna ef tækifæri gefast.
Aðalfundur
Stjórn leggur til við aðalfund að greiddur verði arður að fjárhæð 1,89 kr. á hlut vegna ársins 2022. Aðalfundur félagsins verður haldinn þann 8. mars n.k. á Hótel Reykjavik Natura og hefst kl 15.
Nánari upplýsingar og kynningarfundur
Reitir bjóða markaðsaðilum og fjárfestum á kynningarfund þar sem Guðjón Auðunsson, forstjóri, og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, munu kynna uppgjörið. Fundurinn verður haldinn kl. 8:30 þriðjudaginn 14. febrúar í Ásbergi, Sambíóunum Kringlunni.
Kynningarefni fundarins er aðgengilegt á fjárfestasíðu Reita, reitir.is/fjarfestar.
Um Reiti
Reitir fasteignafélag er íslenskt hlutafélag. Samstæða félagsins samanstendur af móðurfélaginu, Reitum fasteignafélagi hf., ásamt dótturfélögum, sem öll eru að fullu í eigu móðurfélagsins. Starfsemi félagsins felst í eignarhaldi, útleigu og umsýslu atvinnuhúsnæðis, sem er að stærstum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir í eigu félagsins eru um 135 talsins, um 455 þúsund fermetrar að stærð.
Meðal fasteigna félagsins má nefna stærstan hluta verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar, Spöngina og Holtagarða, skrifstofubyggingar við Höfðabakka 9 og Vínlandsleið ásamt húsnæði höfuðstöðva Icelandair Group, Sjóvár, Origo og Advania og skrifstofu Landspítalans við Skaftahlíð 24. Hótelbyggingar í eigu Reita eru m.a. Hótel Borg og Hotel Hilton Reykjavík Nordica ásamt Icelandair Hotel Reykjavík Natura. Stærstu leigutakar Reita eru Hagar, Flugleiðahótel, ríki og sveitarfélög. Þá heldur félagið á nokkrum verðmætum byggingarreitum.
Upplýsingar veita Guðjón Auðunsson, forstjóri, í síma 575 9000 eða 660 3320, og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, í síma 575 9000 eða 669 4416.
Viðhengi
