9. nóvember 2022


Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 og næstu þrjú ár þar á eftir var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag,  þann 9. nóvember.

Fjárhagsáætlun ársins 2023 er fyrsta fjárhagsáætlun nýs meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar. Í henni er að finna áherslur sem koma fram í málefna­samningi flokkanna.

Afgangur af rekstri Mosfellsbæjar næst fram þrátt fyrir erfitt efnahagslegt umhverfi, aukningu í þjónustu og miklar framkvæmdir á næsta ári.

Rekstrarumhverfi sveitarfélaga er viðkvæmt, ekki síst vegna hækkandi fjármagnskostnaðar og óvissu í kjaramálum

Heildstæð uppbygging íþróttasvæða og búsetuúrræði fyrir fatlað fólk

Meðal áherslna á kjörtímabilinu er heild­stæð upp­bygg­ing íþróttasvæða í bæj­ar­fé­lag­inu, umfangsmiklar stofnframkvæmdir vegna fjölgunar atvinnulóða, aukning á leikskólaplássum og bygging búsetuúrræða fyrir fatlað fólk. Ennfremur er gert ráð fyrir stofnframlögum til óhagnaðar­drifinna félaga. Þá verður unnið að því að Mosfellsbær hljóti viðurkenningu sem Barnvænt samfélag á kjörtímabilinu.

Á næsta ári er gert ráð fyrir að öll börn fái þjónustu að loknu fæðingarorlofi foreldra og gert er ráð fyrir eflingu heimaþjónustu fyrir eldri borgara. Þá er frístundaþjónusta við fötluð börn efld, sem og skammtímadvöl.

Á árinu 2023 verður ennfremur haldið áfram að innleiða farsældarlögin með Farsældarhringnum sem er samstarfsverkefni velferðarsviðs og fræðslu- og frístundasviðs. Fjárheimildir eru auknar til stoðþjónustu við börn í leik-og grunnskólum og ráðgjafaþjónustu við börn og fjölskyldur.

Fjárfestingar í skólum og innviðum atvinnusvæðis á landi Blikastaða

Fjárfestingar ársins 2023 einkennast af mörgum verkefnum en þar bera hæst endurbætur á Kvíslarskóla og lokið verður við byggingu íþróttahúss við Helgafellsskóla auk vinnu við endurbætur íþróttavalla á Varmársvæðinu.

Komið verður á fót nýjum leikskólarýmum en mikil fjölgun er í hópi leikskólabarna í Mosfellsbæ samhliða uppbyggingu nýrra hverfa.

Í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu atvinnusvæðis á Blikastöðum er gert ráð fyrir umfangsmiklum framkvæmdum við stofnlagnir vatns-, hita- og fráveitu ásamt raf- og fjarskiptalögnum. Þá verður unnið að frekari stefnumörkun á sviði atvinnumála.

Á næsta ári lýkur end­ur­skoð­un að­al­skipu­lags Mos­fells­bæj­ar og vinna haf­in við for­gangs­röð­un og gerð ramma­skipu­lags mögu­legra upp­bygg­inga­svæða.

Nánari upplýsingar veitir:

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri í síma 8581800, regina@mos.is.

Attachment