Auður Daníelsdóttir hefur verið ráðin sem forstjóri Orkunnar IS ehf., rekstrarfélags í fullri eigu SKEL fjárfestingafélags hf. Orkan er félag í mikilli uppbyggingu sem veitir neytendum margþætta þjónustu, en rekstur félagsins nær til 73 þjónustustöðva Orkunnar, Extra, 10-11, Löðurs bílaþvottastöðva, apóteka Lyfjavals, Íslenska vetnisfélagsins og Gló. Félagið fer auk þess með eignarhald í félögunum Brauð & Co og WEDO (Heimkaup, Hópkaup, Bland). Auður mun taka til starfa um mitt sumar.

Auður er Cand.Oecon í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, lauk námi í starfsmannastjórnun frá Háskóla Íslands og AMP stjórnendanámi frá IESE í Barcelona. Hún starfaði hjá Sjóvá frá árinu 2002, sem framkvæmdastjóri starfsmanna- og rekstrarmála, framkvæmdastjóri tjónasviðs og nú síðast sem framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar. Áður starfaði Auður sem starfsmannaráðgjafi hjá PriceWaterhouseCoopers ehf. og sem fulltrúi í hagdeild Samskipa hf.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Orkunnar: „Það er mikill fengur að fá Auði sem forstjóra Orkunnar, hún hefur mikla þekkingu af rekstri og stjórnun og mun efla Orkuna og dótturfélög til betri verka.“

Auður Daníelsdóttir: „Ég hlakka til að takast á við spennandi verkefni með starfsfólki Orkunnar. Fyrirtækið er á áhugaverðum stað þar sem breytingar hafa verið miklar og tækifærin mörg. Þjónusta við viðskiptavininn hefur alltaf skipað mikilvægan sess í mínum störfum og mun gera það áfram. Það liggja einnig mikil tækifæri í orkugeiranum og ekki hvað síst frá umhverfis- og sjálfbærni hliðinni."

Nánari upplýsingar veitir Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Orkunnar fjarfestar@skel.is