Árshlutareikningur Regins hf. 1. janúar til 30. september 2020 var samþykktur af stjórn þann 5. nóvember 2020.
Félagið er skráð í Kauphöll Íslands (NASDAQ Iceland hf.), fjöldi hluthafa þann 30. september sl. voru 469.
Rekstur og afkoma
Grunnrekstur félagsins er traustur en áhrifa af COVID-19 gætir hinsvegar í rekstrinum. Á yfirstandandi tímabili hefur verið lögð mikil vinna í aðgerðir til að lágmarka áhrif COVID-19 á rekstur félagsins.
Rekstrartekjur námu 7.177 m.kr. og þar af námu leigutekjur 6.745 m.kr., sem er rúmlega 1,5% lækkun leigutekna á milli ára. Lækkun skýrist fyrst og fremst af áhrifum í tengslum við COVID-19 og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.
Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir / EBITDA var 4.689 m.kr. sem er um 6,2% lægri en á sama tímabili í fyrra.
Eignasafn og efnahagur
Eignasafn Regins er fjölbreytt og samanstendur af góðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Fjöldi fasteigna í lok tímabilsins var 114 og heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 375 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er um 96% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi. Eignasafn félagsins er að mestu óbreytt á milli tímabila, að undanskyldum tveimur minni eignum sem voru seldar á tímabilinu þ.e. Álfabakki 12 og Mörkin 4.
Í virðismati á eignum félagsins er gert ráð fyrir að tekjur í ferðatengdri starfsemi dragist verulega saman á árinu 2020 sem vara mun út árið 2021 og að innlend eftirspurn dragist saman á árinu en muni ná jafnvægi á árinu 2021. Til að mæta óvissu vegna áhrifa COVID-19 hefur áhættuálag við útreikning á ávöxtunarkröfu einnig verið hækkað frá því sem það var um áramót og til viðbótar hafa hótel verið færð í hærri áhættuflokk. Heildar matsbreyting á fyrstu 9 mánuðum ársins var 47 m.kr.
Umsvif og horfur
Fjárhagsstaða félagsins er sterk og fjárhagsleg skilyrði vel innan marka lánaskilmála, vaxtaþekja 1,9 (skilyrði 1,5) og eiginfjárhlutfall 30,3% (skilyrði 25%). Í lok tímabilsins var handbært fé 2.854 m.kr. og auk þess hafði félagið aðgang að ónýttum lánalínum að fjárhæð 3.725 m.kr. í lok tímabilsins.
Þrátt fyrir mikla óvissu vegna áhrifa COVID-19 eru stjórnendur félagsins bjartsýnir á horfur framundan. Félagið greip strax til aðgerða til að styrkja lausafjárstöðu félagsins í kjölfar faraldursins til að mæta greiðsluerfiðleikum viðskiptavina. Síðustu mánuði hefur félagið unnið í sértækum lausnum með þeim leigutökum sem verða fyrir mestum fjárhagslegum áhrifum vegna COVID-19. Yfirstandandi aðgerðir og sú reynsla sem byggst hefur upp síðasta hálfa árið gefur sterkar vísbendingar um hvaða áhrifa gætir í rekstri og eignasafni félagsins. Í lok september lágu fyrir samkomulög við leigutaka sem orðið höfðu fyrir áhrifum vegna COVID-19. í kjölfarið sendi félagið frá sér endurskoðaða áætlun fyrir árið 2020 og rekstrarspá fyrir árið 2021.
Merkjanlegur árangur hefur náðst í rekstri eigna félagsins auk reksturs í fasteignum.
Hluthafafundur var haldinn hjá félaginu þann 9. september þar sem tillaga um hækkun hlutafjár til að viðhalda eiginfjár- og lausafjárstöðu félagsins í kjölfar arðgreiðslu var samþykkt. Í samræmi við samþykkt aðalfundar frá 11. mars sl. var arður greiddur hjá félaginu þann 11. september sl.
Vel hefur gengið að ljúka framkvæmdum við endurskipulagningaverkefni og að koma þeim í tekjuhæft ástand. Félagið hefur í sumar afhent leigurými að Bæjarlind 1-3 vegna Geðheilsuteymi Suðurs, Miðhrauni 4 vegna Distica, Skútuvogi 2 vegna tveggja leigutaka sem og Miðhellu 2 og Miðhrauni 15. Stærsta endurskipulagningaverkefni sem nú er í gangi hjá félaginu er endurbygging og stækkun að Suðurhrauni 3 vegna höfuðstöðva Vegagerðarinnar.
Samfélagsábyrgð og grænar áherslur
Reginn hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á umhverfismál og sjálfbærni í sínum rekstri sem endurspeglast í metnaðarfullri sjálfbærnistefnu félagsins. Lykilþáttur í vegferð Regins í umhverfismálum var alþjóðleg umhverfisvottun Smáralindar í desember síðastliðnum, en Smáralind er fyrsta fasteignin á Íslandi sem hlýtur hina alþjóðlegu BREEAM In-Use umhverfisvottun. Félagið ætlar sér að vera leiðandi í umhverfisvottun fasteigna, þar sem fylgt er alþjóðlegum kröfum um umhverfisþætti, áhættustýringu og rekstur.
Reginn hf. fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndafyrirtæki í rekstri fyrir árið 2020 og var þar í 11. sæti. Félagið tók einnig við viðurkenningu sem Fyrirmyndafyrirtæki í góðum stjórnarháttum í ágúst sl. Einnig hefur félagið móttekið mat Reitunar á stöðu félagsins í ESG málum eða umhverfis-, félags- og stjórnarháttamálum. Þar er tekið tillit til stöðu félagsins í grænni fjármögnun, umhverfisbókhaldi, vellíðan starfsmanna og stjórnarháttum. Stjórnendur félagsins eru ánægð með þá yfirferð og einnig telja þeir að hún veiti þeim hvatningu í að halda áfram á sömu braut.
Skuldabréfaútgáfa
Í lok júní lauk Reginn, fyrst íslenskra fasteignafélaga, sölu á grænum skuldabréfum (REGINN50 GB). Reginn varð þar með fyrsti einkaaðilinn og fyrsta skráða félagið á íslenskum hlutabréfamarkaði til að gefa út slík bréf.
Í október lauk Reginn sölu á nýjum grænum skuldabréfum (REGINN23 GB). Skuldabréfaflokkurinn, sem gefinn var út undir útgáfuramma félagsins, er óverðtryggður til tæplega 3 ára og voru 2 milljarðar að nafnverði seldir í lokuðu útboði til fagfjárfesta. Skuldabréfin bera 3,20% fasta vexti og voru seld á pari. Uppgjöri lauk þann 4. nóvember sl.
Reginn stefnir að því að greiða upp skuldabréfaflokkinn REG2 Smáralind þann 12. desember nk. Félagið hyggst bjóða núverandi eigendum skuldabréfa í REG2 skuldabréf í flokknum REGINN50 GB í skiptum fyrir bréfin, ásamt því að bjóða öðrum fjárfestum að kaupa skuldabréf í flokknum. Félagið hefur fundið fyrir áhuga lánastofnana á grænum lánveitingum til félagsins og er það til skoðunar samhliða skuldabréfaútgáfunni.
Kynning á félaginu
Samhliða birtingu uppgjörs boðar Reginn til rafræns kynningarfundar föstudaginn 6. nóvember, kl. 08:30. Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins mun kynna uppgjör fyrstu níu mánaða ársins 2020. Hafi aðilar spurningar varðandi uppgjörið eða kynninguna er hægt að senda fyrirspurn á fjarfestatengsl@reginn.is fyrir fundinn og meðan á kynningu stendur sem svarað verður að kynningu lokinni.
Fundinum verður varpað í gegnum netið á eftirfarandi slóð:
https://livestream.com/accounts/11153656/events/9371548/player
Hægt er að nálgast árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða ársins og kynningargögn á www.reginn.is/fjarfestavefur/
Nánari upplýsingar veitir:
Helgi S. Gunnarsson
Forstjóri Regins hf.
Sími: 512 8900 / 899 6262
Viðhengi