Með lögum um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs nr. 151/2019 var yfirstjórn ÍL-sjóðs flutt til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Ein megin ástæða þessa flutnings var að sú fjármálaumsýsla sem byggst hafði upp innan Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslna á eldri lánum sjóðsins var orðin afar umfangsmikil og ekkert útlit fyrir að hægja myndi á uppgreiðslum á útlánum sjóðsins.  Vegna ríkisábyrgða á skuldum sjóðsins og þess hversu umsýsla eigna og skulda hans er nátengd skulda- og lausafjárstýringu ríkissjóðs, var lagt til að ábyrgð á ÍL-sjóði yrði flutt til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Vegna hagkvæmnisjónarmiða hefur lausafjárstýring ríkissjóðs og ÍL-sjóðs verið sameinuð. Er það gert með því markmiði að lágmarka kostnað ríkissjóðs og auka sveigjanleika hans til að mæta skammtímasveiflum í sjóðsstöðu. Þessi ráðstöfun dregur úr fjárþörf ríkissjóðs til skamms tíma og eykur möguleika hans á að bregðast við tekjufalli og auknum útgjöldum vegna Covid-19. Ráðstöfunin er hugsuð til skamms tíma og hefur ekki áhrif á markmið laga nr. 151/2019 um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs. Áfram verður tryggt að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar og greiðslur vegna HFF bréfa.

Með vísun í tilkynningu Nasdaq Iceland hf. sem birt var þann 28. apríl, mun ÍL-sjóður nýta sér veittan frest til þess að birta ársreikning sinn, í samræmi við tilmæli ESMA vegna Covid-19 faraldursins. Á það bæði við um uppgjör Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2019 sem og stofnefnahag ÍL-sjóðs.