Í tilkynningu þann 8. apríl sl. um aðgerðir Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga vegna Covid-19 kom fram að stjórn félagsins hafði á fundi sínum sama dag samþykkt að auka heimild til fjármögnunar í formi skuldabréfaútgáfu, víxlaútgáfu eða bankalána úr 13 milljörðum króna á árinu 2020 í allt að 30 milljarða króna. Eins og fram kom í tilkynningunni er ástæða þessarar auknu fjármögnunarþarfar auknar fjárfestingar og arðgreiðslur ásamt væntingum um verri efnahagshorfur almennt. Þá er einnig gert ráð fyrir endurgreiðslu á lánum til eigenda félagsins.
Staða Orkuveitunnar er sterk um þessar mundir en sjóðsstaða nemur rúmum 21 milljarði króna. Jafnframt hefur félagið aðgang að lánalínum að fjárhæð 7 milljarða króna út árið 2020. Félagið er vel rekstarhæft og getur tekið á sig áföll um fyrirsjáanlega framtíð. Fyrirtækið hefur gert mjög ströng álagspróf sem það þolir óháð fyrirhuguðum lántökum.
Á þessu stigi liggur ekki nákvæmlega fyrir hver heildarfjármögnunarþörf félagsins verður á yfirstandandi ári og ræðst endanleg fjármögnun bæði af innri og ytri þáttum. Gert er ráð fyrir að um helmingur fjármögnunar ársins verði í formi bankalána frá innlendum og erlendum bönkum og um helmingur verði í formi útgáfu skuldabréfa á innlendum skuldabréfamarkaði, eftir aðstæðum. Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar gefið út skuldabréf á árinu 2020 fyrir um 5 milljarða og því er gert ráð fyrir útgáfu skuldabréfa fyrir um 10 milljarða það sem eftir lifir árs ef markaðsaðstæður leyfa.