Þar sem mikil óvissa ríkir á eignamörkuðum í tengslum við útbreiðslu og áhrif COVID-19 veirunnar og þeirra áhrifa sem þegar gætir í hagkerfinu telur stjórn félagsins að slík óvissa ríki um horfur í afkomu félagsins á árinu 2020 að rétt sé að fella úr gildi þá afkomuspá fyrir árið sem birt var þann 31. janúar og kynnt á fjárfestakynningu félagsins þann 28. febrúar sl.  Félagið mun ekki gefa út nýja spá fyrr en það óvissuástand sem nú ríkir hefur náð jafnvægi. Eftir sem áður mun félagið birta mánaðarlega upplýsingar um samsett hlutfall og ávöxtun fjáreigna.

Félagið er fjárhagslega sterkt, rekstur þess og efnahagur er afar sterkur og telur stjórn það því vel í stakk búið til að takast á við aðstæðurnar.

Í ljósi þeirrar óvissu sem uppi er um áhrif COVID-19 heimsfaraldursins hefur stjórn félagsins dregið til baka tillögu stjórnar um arðgreiðslu. Leggur stjórn jafnframt til að aðalfundur taki ákvörðun um að afgreiðslu dagskrárliðar 3 varðandi það hvernig fara skuli með hagnað félagsins og greiðslu arðs verði frestað til framhaldsaðalfundar, sem haldinn verði innan tveggja mánaða frá aðalfundardegi. Verði tillaga um frestun samþykkt mun stjórn leggja fram endurskoðaða tillögu um arðgreiðslu fyrir boðun þess fundar.