Skeljungur hf. hefur gert nýja samninga um viðskiptavakt á útgefnum hlutabréfum í Skeljungi hf. við Íslandsbanka hf. og Arion Banka hf. og taka þeir gildi 4. mars 2020. Þessir samningar koma í stað eldri samninga um viðskiptavakt sem gerðir voru við sömu aðila í lok árs 2016. Samningarnir eru í samræmi við ákvæði 116. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Skeljungur hf. hefur hins vegar sagt upp samningi sínum við Landsbankann hf. um viðskiptavakt með hlutabréf í Skeljungi hf., sem var einnig frá lok 2016, og tekur uppsögnin gildi frá og með 4. mars 2020.

Tilgangurinn með viðskiptavaktinni er að efla viðskipti með hlutabréf félagsins í Kauphöll Nasdaq Iceland í því skyni að seljanleiki hlutabréfa félagsins aukist, markaðsverð skapist og verðmyndun hlutabréfanna verði með skilvirkum og gagnsæjum hætti.

Íslandsbanki hf. og Arion Banki hf. skuldbinda sig sem viðskiptavakar til að setja daglega fram kaup- og sölutilboð á Nasdaq Iceland í hlutabréf Skeljungs hf. Báðir samningarnir við bankana kveða á um að lágmarksfjárhæð kaup- og sölutilboða sé 1.000.000 hlutir að nafnvirði og hámarksfjárhæð heildarviðskipta bankanna, dag hvern, 75.000.000 kr.

Hámarksmunur á kaup- og sölutilboðum er 1,5% og skal frávik frá síðasta viðskiptaverði ekki vera meira en 3% .

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, fjarfestar@skeljungur.is.

Skeljungur er orkufyrirtæki sem selur vörur og þjónustu á Íslandi, í Færeyjum og á Norður-Atlantshafinu. Meginstarfsemi félagsins er innflutningur, birgðahald, sala og dreifing á eldsneyti og eldsneytistengdum vörum og smásala. Félagið starfrækir 76 eldsneytisstöðvar og 6 birgðastöðvar á Íslandi og í Færeyjum. Auk þess selur félagið áburð og efnavörur á Íslandi og rekur verslanir og þjónustar og selur olíu til húshitunar í Færeyjum. Viðskiptavinir Skeljungs spanna frá einstaklingum til fyrirtækja, í sjávarútvegi, landbúnaði, flutningum, flugi og til verktaka. Starfsemin er rekin undir merkjunum Skeljungur, Orkan, Kvikk og Magn. Meginmarkmið Skeljungs er að þjóna orkuþörf einstaklinga og fyrirtækja á hagkvæman og öruggan máta í sátt við umhverfi sitt.

www.skeljungur.is

https://www.linkedin.com/company/skeljungur-hf/