Helstu atriði í afkomu Íslandsbanka á árinu 2019
Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka
Á árinu 2019 endurmátum við stefnu Íslandsbanka og skilgreindum nýtt hlutverk fyrir bankann sem „hreyfiafl til góðra verka“. Við höfum samþykkt framsýna sjálfbærnistefnu sem felur í sér að samþætta þau sjónarmið arðsemismarkmiði bankans.
Afkoma Íslandsbanka á árinu 2019 var ásættanleg og sér í lagi þegar horft er til þess að mikið hægði á hagvexti á árinu 2019. Bankinn skilaði hagnaði upp á 8,5 ma. kr. sem samsvarar 4,8% arðsemi eiginfjár sem er undir langtímaarðsemismarkmiði. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 6,6%. Tekjur bankans jukust um 7,8% á árinu og kostnaðarhlutfall bankans lækkaði í 62,4% og 57,1% fyrir móðurfélagið. Líkt og á árinu 2018 hafði rekstur eins dótturfélags neikvæð áhrif á afkomu samstæðunnar. Ný stefna Íslandsbanka og skilvirkari rekstur munu hjálpa okkur að ná þeim arðsemismarkmiðum sem við höfum sett okkur.
Vöxtur inn- og útlána á árinu var kröftugur eða 6,8% og 6,3%. Aðstæður á fjármagnsmörkuðum, hér heima sem erlendis, voru bankanum hagfelldar á árinu og var fjármögnun bankans áfram farsæl og fjölbreytt. Lausa- og eiginfjárhlutföll bankans héldust áfram sterk og voru vel yfir innri viðmiðum og kröfum eftirlitsaðila. Af þessu leiðir að Íslandsbanki mun, eftir sem áður, vera vel í stakk búinn til að veita efnahagslífinu það súrefni sem þarf til viðgangs og vaxtar.
Við vorum stærst á markaðnum í miðlun verðbréfa, eignir í stýringu jukust verulega á árinu sem og eignir í vörslu. Auk þess áttu Íslandssjóðir mjög gott ár og voru sjóðir félagsins í fyrsta sæti í ávöxtun á landsvísu í þremur flokkum af fjórum.
Við héldum áfram að fjárfesta í stafrænum lausnum á árinu 2019 og breyttum skipulagi á upplýsingatækni úr því að vera verkefnadrifið í vörumiðað skipulag. Með þessu tengjum við viðskiptasviðin betur við stafrænu vöruþróunina okkar sem verður sífellt mikilvægari fyrir reksturinn. Við kynntum til leiks fjölmargar lausnir þar á meðal nýtt app Íslandsbanka, sjálfvirkt greiðslumat og húsnæðislánaumsókn þar sem sótt er um á nokkrum mínútum.
Sem hluti af stefnumótuninni ákvað samstilltur hópur starfsmanna að styðja sérstaklega við fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og aðgerðir í loftslagsmálum. Einnig var samþykkt á árinu að innleiða alþjóðleg viðmið um umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti inn í rekstur bankans. Með þessum stuðningi viljum við vera hreyfiafl til góðra verka.
Framundan eru spennandi en krefjandi tímar og við hlökkum til að vinna áfram í átt að nýju stefnunni í samvinnu við viðskiptavini og samstarfsaðila okkar.
Helstu atriði úr rekstri Íslandsbanka á árinu 2019
Fjárfestatengsl
Símafundur með markaðsaðilum á ensku kl. 9.30
Símafundur með markaðsaðilum vegna uppgjörs verður haldinn 13. febrúar kl. 9.30. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Fundurinn verður á ensku.
Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.
Afkomufundur á íslensku kl. 10.30
Afkomufundur með innlendum markaðsaðilum verður haldinn 13. febrúar, kl. 10.30 í höfuðstöðvum Íslandsbanka að Hagasmára 3, 201 Kópavogi á 9. hæð. Fundurinn verður á íslensku.
Vinsamlegast skráið ykkur á afkomufundinn með pósti á: ir@islandsbanki.is
Öll gögn tengd uppgjöri ásamt upplýsingum um fjárhagsdagatal og þögul tímabil má finna hér: https://www.islandsbanki.is/is/flokkur/bankinn/fjarfestatengsl
Nánari upplýsingar veita:
Fjárfestatengsl – Margrét Lilja Hrafnkelsdóttir, margretlhr@islandsbanki.is
Samskiptastjóri - Edda Hermannsdóttir, edda.hermannsdottir@islandsbanki.is
Póstlisti Íslandsbanka
Ef þú vilt gerast áskrifandi að kauphallarfréttum Íslandsbanka þá vinsamlegast skráðu þig hér: https://www.islandsbanki.is/um-islandsbanka/fjarfestatengsl/hafdu-samband/postlisti/
Um Íslandsbanka
Íslandsbanki er leiðandi fjármálafyrirtæki á Íslandi með heildareignir sem nema 1.036 ma. kr. (8,3 milljarðar evra) og með 25-50% markaðshlutdeild á innanlandsmarkaði. Saga Íslandsbanka spannar 140 ár af þjónustu við lykilatvinnuvegi þjóðarinnar en á þessum tíma hefur bankinn byggt upp sérþekkingu á sviði ferðaþjónustu, sjávarútvegs og orku. Framtíðarsýn Íslandsbanka er að vera #1 í þjónustu og vinna þrjú viðskiptasvið þétt saman til að tryggja góð sambönd við viðskiptavini bankans. Til að koma enn betur til móts við þarfir viðskiptavina, þá hefur Íslandsbanki þróað margvíslegar nýjar stafrænar lausnir s.s. öpp fyrir bankaþjónustu, Kreditkort og Kass. Á sama tíma rekur bankinn skilvirkasta útibúanetið með 14 útibú staðsett á lykilstöðum um land allt. Fimmta árið í röð á Íslandsbanki ánægðustu viðskiptavinina á bankamarkaði samkvæmt niðurstöðu Íslensku ánægjuvogarinnar og þá var bankinn einnig útnefndur besti bankinn á Íslandi árið 2017 af tímaritinu The Banker. Íslandsbanki hefur BBB+/A-2 lánshæfismat frá S&P Global Ratings og BBB/F3 frá Fitch Ratings og er eini íslenski bankinn með lánshæfismat frá tveimur alþjóðlegum lánshæfismatsfyrirtækjum. www.islandsbanki.is
Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.
Viðhengi