Afkomuspá ársins 2019 er EBITDA á bilinu 49 til 57 milljónir evra


VILHELM ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

„Afkoma Eimskips á árinu 2018 var undir væntingum. Nokkur tekjuaukning varð bæði í siglingakerfi félagsins sem og í flutningsmiðlun sem er jákvætt en á móti kemur að minnkandi framlegð, hærri kostnaður og afskriftir draga afkomu niður á milli ára. Lítilsháttar aukning varð á tekjum á fjórða ársfjórðungi sbr. sama ársfjórðung 2017 en engu að síður er rekstrarniðurstaða fjórðungsins tap, að hluta til vegna óreglulegra liða.

Samdráttur í  rekstrarniðurstöðu á milli ára skýrist af nokkrum megin þáttum umfram aðra. Í grunninn gengur siglingastarfsemin til og frá Íslandi og Færeyjum, ásamt annarri starfsemi í þessum löndum, vel en rekstrarafkoma í frystiflutningum í Noregi var langt undir væntingum og eins átti hluti af flutningsmiðlun í Evrópu undir högg að sækja á árinu, sérstaklega framan af ári. Starfsemin í Noregi hefur fengið sérstaka athygli og t.a.m. verið fækkað um tvö skip í rekstri, það síðara nú í janúar.  Lengri tíma tók að byggja upp magn fyrir þriðja skipið á Norður-Ameríku leið félagsins en áætlað var sem hafði áhrif á afkomu ársins en á síðustu mánuðum hefur orðið jákvæð þróun í magni í Trans-Atlantic þjónustu. Óvissa í efnahagsmálum á Íslandi m.a. tengdum kjaraviðræðum höfðu einnig áhrif á síðasta fjórðung ársins en hægt hefur á vexti í innflutningi og samdráttur í ákveðnum vöruflokkum. 

Töluverðar breytingar voru gerðar á skipulagi félagsins í upphafi árs 2019 sem eru til þess fallnar að skýra áherslur til muna, bæta reksturinn og auka arðsemina til lengri tíma litið. Siglingakerfi félagsins er endurskoðað með reglulegu millibili með tilliti til þróunar markaða, þarfa viðskiptavina og hagkvæmni. Áhersla er lögð á að samþætta vinnu og verkferla á milli eininga í allri starfsemi félagsins til að ná fram aukinni skilvirkni, m.a. með aukinni sjálfvirknivæðingu.

Eimskip stendur á ákveðnum tímamótum þegar horft er til reksturs og framtíðar. Seinni hluta árs 2019 gerum við ráð fyrir að taka á móti tveimur nýjum skipum, 2.150 gámaeiningar að stærð hvort um sig sem nú eru í smíðum í Kína og er fjárfesting í þeim hluti af væntanlegu samstarfi við Royal Arctic Line. Undanfarin ár hafa einkennst af miklum ytri vexti og er það nú sameiginlegt verkefni þess öfluga og samhenta hóps sem hjá Eimskip starfar að byggja á þeim grunni, halda skýrri sýn, skerpa á áherslum í rekstri og hámarka árangur.“


Frekari upplýsingar

Viðhengi