Árið 2018
Fjórði ársfjórðungur 2018
Orri Hauksson, forstjóri:
„Rekstur Símasamstæðunnar var sterkur árið 2018. Heildartekjur jukust lítillega, en ólíkt árunum á undan var myndarlegur vöxtur í smásölutekjum. Fjölgun viðskiptavina er meginástæða þessa vaxtar. Eins og fyrirséð var drógust saman tekjur af reiki og heildsölu. Vel gekk að halda aftur af kostnaðarhækkunum árið 2018, þrátt fyrir að almennt verðlag hafi hækkað nokkuð og að krónan hafi lækkað á síðari hluta ársins gagnvart gjaldmiðlum, sem hluti kostnaðar samstæðunnar er í. Niðurstaðan er því að EBITDA óx milli ára, eins og samstæðan stefnir að ár hvert. EBITDA hlutfall samstæðunnar var í fyrra hið hæsta síðan árið 2006.
Sjónvarpsþjónusta Símans var í mikilli sókn árið 2018 og eru viðskiptavinir með Sjónvarp Símans Premium nú yfir 40 þúsund. Viðskiptavinum í farsíma fjölgaði einnig, en í fyrsta skipti frá því samkeppni hófst í farsíma á Íslandi árið 1998 fluttu fleiri viðskiptavinir símanúmer sín til Símans frá öðrum þjónustuveitendum en öfugt. Internet og önnur gagnaþjónusta hélt einnig áfram að vaxa á árinu hjá Símanum og í heildsölu Mílu. Nálgast fjöldi heimila með virkar ljósleiðaratengingar frá samstæðunni nú 20 þúsund, af þeim 80 þúsund heimilum sem samstæðan þjónustar. Seinni hluta næsta árs munu fleiri heimili nýta ljósleiðara samstæðunnar heim í hús en tengingu um ljósnet.
Míla átti eitt besta rekstrarár sitt árið 2018 og félagið hefur ekki áður skilað jafn hárri EBITDA framlegð í krónum talið né sem hlutfall af tekjum. Að nokkrum hluta kemur þessi árangur til af einstökum verkefnum á árinu 2018, sem ekki verða endurtekin í ár. Helsta ástæðan er þó traustur grunnrekstur. Viðskiptavild Mílu var skrifuð niður um tæpa þrjá milljarða í lok ársins 2018. Ástæður þessarar virðisrýrnunar eru mikil hækkun áhættulausra vaxta á árinu og að fjárfestingum í ljósleiðara var flýtt vegna ytri samstarfsverkefna. Virðisrýrnunin setur mark sitt á rekstrar- og efnahagsreikning ársins. Þannig hnikast til ýmis reiknuð hlutföll í reikningum samstæðunnar og efnahagsreikningurinn minnkar sem niðurskriftinni nemur. Á hinn bóginn hefur breytingin hvorki áhrif á fjárflæði, skattgreiðslur né getu til fjárfestinga og greiðslu arðs.
Önnur og meiri breyting mun birtast á efnahags- og rekstrarreikningum félagsins í ár. IFRS 16 reikningsskilastaðallinn verður nú tekinn upp, sem þýðir að leigusamningar samstæðunnar færast bæði eigna og skulda megin í efnahag samstæðunnar, en afskrifast árlega í samræmi við líftíma samninganna. Þá mun meðhöndlun sjónvarpsefnis einnig færast að stórum hluta yfir í fjárfestingar í óefnislegum eignum og afskriftir. Niðurstaðan í heild er meðal annars sú að mæld EBITDA framlegð og fjárfestingar hækka, auk þess sem efnahagur samstæðunnar stækkar. Rétt eins og með niðurfærslu viðskiptavildar eru engin áhrif af þessum bókhaldsbreytingum á fjárflæði samstæðunnar, né breytist efnahagslegur veruleiki hennar að nokkru leyti við þessa nýju framsetningu.
Sensa átti góðan fjórðung í lok árs 2018. Félagið aflaði í heild jafn mikilla tekna árið 2018 og árið áður, að frátöldum rekstri félagsins í Danmörku, sem var að mestu lagður niður í lok árs 2017. Samhliða því, að tæknibúnaður og hýsingarumhverfi samstæðunnar var flutt í fyrsta flokks hýsingaraðstöðu í gagnaveri Verne Global á Suðurnesjum, var lögð lokahönd á endurnýjun og uppfærslu alls hýsingarumhverfisins. Þessi verkefni birtast í fjárfestingum og kostnaði ársins. Nú þegar er sýnilegur afrakstur af þessari breytingu í meira þjónustuframboði og lækkun kostnaðar við rekstur innviða. Horfur fyrir árið í ár eru stöðugar hjá Sensa og fela í sér ýmis færi til sóknar.
Ýmsir áhættuþættir eru í rekstri Símasamstæðunnar. Þannig er sérstaklega hart barist á íslenskum markaði fyrir fjarskipti og upplýsingatækni. Verð á farsímamarkaði eru áfram undir miklum þrýstingi og á Íslandi eru nú ein lægstu verð í farsíma í vestrænum heimi. Þá munu deilur á vinnumarkaði mögulega setja mark sitt á næstu vikur og mánuði, þar með talið á rekstrarumhverfi Símasamstæðunnar. Samstæðan er ágætlega búin undir átök og uppákomur í samningagerð aðila vinnumarkaðarins. Verkföll eru skeinuhættari margri annarri starfsemi á Íslandi, en þeirri sem Síminn og dótturfélög reka, en að sjálfsögðu óæskileg okkur sem öðrum, sérstaklega ef þau dragast á langinn. Markmið Símans fyrir árið er að launakostnaður haldist svipaður á milli ára. Stöðugildum hjá Símanum hefur fækkað á undanförnum árum, sem var meðal annars mögulegt vegna áherslu á sjálfvirkni og umbótaverkefna undanfarinna missera. Frekari tækifæri í þá veru munu skapast á árinu. Þannig má nefna að allar vörur og þjónustuleiðir Símans verða boðnar viðskiptavinum í sjálfsafgreiðslu á næsta ári. Eins er nýlokið umfangsmikilli uppfærslu á umhverfi sjónvarpsútsendinga Símans, sem að stórum hluta eru nú komnar í skýið. Viðskiptavinir gera miklar kröfur til stöðugleika slíkrar þjónustu, en eftir breytinguna þarfnast kerfin sem meðhöndla þjónustuna langtum minni mannlegrar umsýslu en áður og líkur á rekstrarhnökrum hafa minnkað til muna.
Sýningarrétturinn á enska boltanum gefur Símanum möguleika til nýrrar og arðvænlegrar tekjusköpunar á næstu árum. Afkomuáhrifin af þessari breytingu verða óveruleg á þessu ári, en munu móta framtíðarstarfsemi okkar strax frá því í vor. Í heild er staða Símans og dótturfélaga sterk á tímum breytinga og aukinnar óvissu í hagkerfinu.“
Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:
Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550 6003 (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans, s. 550 6003 (oskarh@siminn.is)
Viðhengi