Um leið og minnt er á áður boðaðan hluthafafund HB Granda hf. sem haldinn verður þriðjudaginn 16. október 2018 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1, 101 Reykjavík og hefst klukkan 17:00, þá er nú kynnt endanleg dagskrá fundarins, með breytingu sem helgast af tillögu frá Gildi lífeyrissjóði um breytta málsmeðferð og undirbúning vegna tillögu stjórnar, sem áður hefur komið fram.
Dagskrá
Tillaga Gildis lífeyrissjóðs felur í sér, ef samþykkt verður, að fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf. verður falið að meta fyrirhuguð viðskipti og skilmála vegna kaupa á öllu hlutafé Ögurvíkur ehf. og skila rökstuddri niðurstöðu eigi síðar en 29. október 2018, sem kynnt verður hluthöfum í kjölfarið, og þeir munu síðan fjalla um tillögu stjórnar á framhaldshluthafafundi hinn 2. nóvember 2018.
Dagskrá, tillögur og öll skjöl sem lögð verða fyrir fundinn, þ.m.t. tillögur stjórnar og Gildis lífeyrissjóðs ásamt greinargerðum, eru hluthöfum tiltæk á íslensku, á heimasíðu félagsins og á skrifstofu félagsins á venjulegum skrifstofutíma.
Allar nánari upplýsingar um fundinn má finna á vefsíðu félagsins www.hbgrandi.is
Til upplýsingar skal þess getið að stjórn HB Granda hf. mun hittast á fimmtudag og ræða bréf framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Reykjavíkur (stærsta hluthafa HB Granda hf.) til HB Granda hf. og tillögu sem þar kemur fram um að hætta við viðskiptin með alla hluti í Ögurvík ehf. að sinni.
Stjórn HB Granda hf.