Helstu niðurstöður á 1F 2018
Orri Hauksson, forstjóri:
„Árið 2018 fer vel af stað. Tekjur aukast milli ára og afkoma batnar. Sú jákvæða þróun á sér ýmsar skýringar. Yngri viðskiptavinum hefur fjölgað hratt í farsíma undanfarna mánuði, sérstaklega vegna velgengni Þrennunnar. Sjónvarpsþjónusta Símans nýtur mikillar hylli hjá kröfuhörðum íslenskum neytendum. Breytingarnar á afþreyingarþjónustu félagsins á undanförnum árum hafa haft það að markmiði að auka þægindi og val viðskiptavinarins, meðal annars um það hvenær hann horfir á sjónvarp og hvaða efni hann kýs. Sú stefna hefur hitt í mark, eins og breytt notkunarmynstur á þjónustu okkar sýnir. Stóraukin gagnanotkun erlendra ferðamanna á Íslandi veldur því einnig að reikitekjur hafa náð þeim upphæðum sem þær voru í á sama fjórðungi í fyrra, fyrir roam-like-at-home reglugerðarbreytinguna. Sjóðstreymi samstæðunnar er gott og stendur vel undir fjárfestingum félagsins og breyttum efnahagsreikningi, sem var minnkaður í fyrra þar sem dregið var bæði úr lánsfjármögnun og handbæru fé.
Verð á ýmsum vörum Símans hefur byrjað að þokast upp á við á ný og þannig verða til að mynda vissar verðbreytingar nú um næstu mánaðamót. Eins og þekkt er hafa laun og ýmsir aðrir kostnaðarliðir á Íslandi hækkað hratt undanfarin ár. Þannig hækka samningsbundin laun um 3% enn á ný um næstu mánaðarmót. Áfram skiptir því máli að slaka ekki á kostnaðaraðhaldi í rekstri samstæðunnar og unnið er að frekari einföldun, aflagningu eldri kerfa og mun meiri sjálfvirkni en fyrr.
Uppbygging Mílu á fjarskiptainnviðum landsins heldur áfram á góðum dampi. Nýlega tókst með félaginu og Gagnaveitu Reykjavíkur samkomulag um samvinnu við framkvæmdir, sem eru dýrasti þáttur fjárfestinga í ljósleiðarakerfum. Þetta samstarf mun draga verulega úr kostnaði Mílu við tengingu hvers nýs heimilis. Mögulega munu einnig færast nær okkur í tíma verkefni á ýmsum svæðum, sem ella hefðu beðið.
Íslensk fyrirtæki hafa haldið nokkuð að sér höndum undanfarna mánuði í innkaupum á upplýsingatæknivörum. Sensa varð fyrir áhrifum af þessari sveiflu í fjórðungnum en fastir þjónustusamningar og verkefnastaðan gefa góðar væntingar um framhaldið. Sensa og Síminn eru komin vel af stað með að færa gagnaversþjónustu sína til Verne Global á Suðurnesjum, sem mun spara samstæðunni verulegan rekstrarkostnað í framtíðinni. Eins gefur samstarfið við Verne kost á að selja heimsklassa gagnaversþjónustu inn á nýja markaði, en fyrstu nýju viðskiptavinirnir hafa þegar byrjað að nýta sér þjónustu sem samstæðan veitir út úr fasteignum Verne, byggða á þeim hagstæðu orkusamningum sem Verne gerði við íslenska raforkuframleiðendur fyrir meira en áratug.
Síminn nær nú til nær allra heimila landsins með 4G kerfi sínu og hefur sett upp farsímasenda sem ná 1 Gb/s hraða. Sameinuðu þjóðirnar veittu íslensku þjóðinni nýlega viðurkenningu, þar sem mælingar samtakanna sýna að Ísland er orðið þróaðasta landið í heiminum í fjarskipta- og upplýsingatækni. En það þýðir ekki að við séum komin á endapunkt. Á næstunni mun Síminn til dæmis kynna spennandi nýjungar í sjónvarps- og afþreyingarþjónustu sinni fyrir snjalltæki, auk þess sem dreifing okkar helstu sjónvarpsvara mun fara yfir fleiri net en fyrr. Við lítum því með bjartsýni til næstu missera, hvort sem er fyrir hönd viðskiptavina okkar eða hluthafa.“
Nánari upplýsingar veita:
Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550 6003 (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans s. 550 6003 (oskarh@siminn.is)
Viðhengi